Valur Bikarmeistari – Benedikt Gunnar með 17 mörk

Valur vann stórsigur gegn ÍBV í úrslitum Powerade-bikarsins 31-43. Benedikt Gunnar Óskarsson, leikmaður Vals, fór á kostum og allt sem hann snerti breyttist í gull. Benedikt skoraði samtals 17 mörk. 

Það var ótrúleg stemning í Laugardalshöll þegar ÍBV og Valur mættust í úrslitum Powerade-bikarsins. Það var gott sem fullt og fólk var annað hvort í hvítum eða rauðum bol.

ÍBV byrjaði leikinn af miklum krafti og tók frumkvæðið. Líkt og í undanúrslitum var Petar Jokanovic að verja vel ásamt því fór Arnór Viðarsson fyrir sínu liði og gerði þrjú af fyrstu átta mörkum ÍBV.

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, var búinn að sjá nóg þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður og tók leikhlé. ÍBV var fjórum mörkum yfir 10-6. Eftir þessa laglegu byrjun hrundi allt hjá Eyjamönnum.

Þegar tæplega sautján mínútur voru liðnar komst Valshraðlestin á teinana og taflið snerist algjörlega við.

Eyjamenn skutu Björgvin Pál Gústavsson í gang sem dró tennurnar úr hverjum Eyjamanninum á fætur öðrum. ÍBV skoraði ekki mark í tæplega ellefu mínútur á meðan Valur refsaði með hverju hraðaupphlaupinu á fætur öðru.

Valur skoraði sex mörk í röð og komst tveimur mörkum yfir 12-14. Þrátt fyrir afar slæman kafla gerði Gabriel Martinez, leikmaður ÍBV, síðasta mark fyrri hálfleiks og Úlfur Páll Monsi Þórðarson, leikmaður Vals, fékk á sig tveggja mínútna brottvísun. Forskot Vals voru tvö mörk í hálfleik 15-17.

Daniel Esteves Vieira, leikmaður ÍBV, skoraði fyrsta markið í síðari hálfleik og minnkaði forskotið niður í eitt mark. Eftir það gaf Valur í og komst fjórum mörkum yfir 19-23.

Það héldu Benedikt Gunnari Óskarssyni, leikmanni Vals, engin bönd. Benedikt fór hamförum og skoraði mörk í öllum regnbogans litum. Benedikt endaði markahæstur með 17 mörk.

Valur með Benedikt á eldi hélt áfram að keyra yfir ÍBV og Magnús Stefánsson, þjálfari ÍBV, tók loksins leikhlé níu mörkum undir 25-34.

Valur endaði á að skora 43 mörk og vann 12 marka sigur 31-43. 

Af hverju vann Valur?

Seinni hálfleikur Vals var ótrúlegur. Valsarar skoruðu 26 mörk og unnu seinni hálfleikinn með tíu mörkum. Þegar Valsarar eru í þessum ham er engin leið að eiga við þá. 

Hverjir stóðu upp úr?

Benedikt Gunnar Óskarsson átti eina bestu frammistöðu í sögu bikarkeppninnar. Benedikt skoraði 17 mörk úr 19 skotum. 

Eftir að hafa farið hægt af stað datt Björgvin Páll Gústavsson í gang. Björgvin varði 14 skot og endaði með 33 prósent markvörslu. 

Hvað gekk illa?

Um miðjan fyrri hálfleik var ÍBV tveimur mörkum yfir en þá kom afar slæmur kafli hjá Eyjaliðinu sem skoraði ekki mark í ellefu mínútur. Valur komst á bragðið og leit aldrei um öxl eftir það.

Í síðari hálfleik míglak vörn Eyjamanna ásamt því vörðu Petar Jokanovic og Pavel Miskevich lítið sem ekki neitt. 

Hvað gerist næst?

Miðvikudaginn 20. mars mætast Haukar og Valur klukkan 19:30.

Föstudaginn 22. mars mætast ÍBV og FH klukkan 19:30.

spot_img

Svipaðar Fréttir

- Auglýsing -spot_img

Vinsælast